Fagráð Æskulýðsvettvangsins

Á vegum Æskulýðsvettvangsins starfar fagráð sem tekur til umfjöllunar kynferðisbrotamál, eineltismál og mál er snúa að annarri óæskilegri hegðun sem koma upp innan þeirra félagasamtaka sem saman mynda Æskulýðsvettvanginn og aðildarfélaga þeirra.

Tilkynna kynferðisbrot, einelti eða aðra óæskilega hegðun

Í fagráðinu sitja alltaf tveir óháðir sérfræðingar sem hafa þekkingu, menntun og reynslu sem nýtist við meðferð kynferðisbrotamála og eineltismála. Í dag starfa lögfræðingur og sálfræðingur í fagráðinu. Framkvæmdastýra Æskulýðsvettvangsins er einnig starfsmaður fagráðsins.

Fagráðið tekur við öllum tilkynningum um kynferðisbrot sem koma upp í starfi félagasamtakanna og aðildarfélaga þeirra og heldur utan um skráningu þeirra. Fagráðið sér til þess að tilkynningunum sé komið í réttan farveg og að þær fái viðhlítandi málsmeðferð samkvæmt verklagsreglum fagráðs og landslögum. Jafnframt leiðbeinir fagráðið þolendum um málsmeðferð og sér til þess að þeir fái stuðning eftir því sem við á hverju sinni.

Fagráðið tekur einnig á eineltismálum sem upp koma innan félagasamtakanna og aðildarfélaga þeirra. Hlutverk fagráðsins í eineltismálum er annars vegar að leita viðunandi niðurstöðu í málum með sáttum sé þess nokkur kostur og hins vegar að veita félögum ráðgefandi álit á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga sem fagráðinu hafa borist í viðkomandi máli.

Fagráðið starfar samkvæmt Viðbragðsáætlun Æskulýðsvettvangsins, verklagsreglum um meðferð kynferðisbrota og verklagsreglum um meðferð eineltismála, siðareglum Æskulýðsvettvangsins og landslögum.

Mæli lög ekki fyrir á annan veg er fulltrúum í fagráðinu skylt að gæta þagmælsku um þau mál sem fagráðinu berast. Samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002 er hverjum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hefur afskipti af málum barna skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd ef hann hefur ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða heilsu þess og þroska sé stofnað í alvarlega hættu. Tilkynningarskylda þessi gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.

Úr verkfærakistunni

Sækja
Verklagsreglur um meðferð eineltismála
Okt 2017
Sækja
Verklagsreglur um meðferð kynferðisbrota
Okt 2017