Hugtakasafn

Mikilvægt er að nota rétt hugtök í allri umræðu um málefni fjölmenningar, inngildingar og mannréttinda. Í þessu hugtakasafni má finna skilgreiningar á nokkrum af helstu hugtökunum sem koma fram í slíkri umræðu.

Mælt er með námskeiði um fjölmenningu og inngildingu í íþrótta- og æskulýðsstarfi fyrir þau sem vilja kafa dýpra í hugtakanotkun, viðhorf og umræðuhefð um málefni fjölmenningar í íslensku samhengi sem og mismunandi birtingarmyndir fordóma, kynþáttaníðs og mismununar. Einnig er mælt með námskeiði um hatursorðræðu í íslensku samfélagi.

Fjölmenning

enska
Multiculturalism

Fjölmenning er hugtak sem yfirleitt er ekki notað eitt og sér heldur með öðrum tengdum hugtökum eins og „fjölmenningarlegt samfélag.“ Þegar talað er um fjölmenningu í þessu samhengi er átt við að fólk með margvíslegan menningarbakgrunn býr og starfar saman á jafnréttisgrundvelli.

Fjölmenningarlegt samfélag

enska
Multicultural society

Ljóst er að ekki er til ein skilgreining á fjölmenningarlegu samfélagi eða öðrum hugtökum sem snerta fjölmenningu sem fræðafólk er sammála um og skilgreiningarnar eru því margar og mismunandi.

Guðrún Pétursdóttir var ein af þeim fyrstu sem notaði hugtakið fjölmenning á Íslandi. Guðrún skilgreindi fjölmenningarlegt samfélag á eftirfarandi hátt: „Fjölmenningarlegt samfélag er hugtak sem notað er um það samfélagsform þar sem fólk frá mismunandi menningarsvæðum og af mismunandi etnískum uppruna býr saman í einu samfélagi.“

Önnur skilgreining á fjölmenningarlegu samfélagi er sú að „með fjölmenningarlegu samfélagi er átt við samfélag fólks af ólíku þjóðerni og af ólíkum menningar- og trúarlegum uppruna, samfélag fólks sem býr yfir ólíkri reynslu, getu og hæfni og býr saman í einu samfélagi, ber virðingu fyrir hvort öðru og hefur samskipti sín á milli.“ Í fjölmenningarlegu samfélagi er litið á fjölbreytileika og sem sjálfsagðan hlut.

Fjölmenningarleg menntun

enska
Multicultural education

Í fjölmenningarlegri menntun felst sú hugmynd að allir nemendur, óháð kyni, þjóðerni, menningu, uppruna og/eða stétt fái jöfn tækifæri til menntunar í skólum, samkvæmt Banks, þar sem meginþættir eru valdeflandi skólamenning, uppeldisfræði jöfnuðar, tenging inntaks menntunar við fjölbreytta menningu, að stuðla að fordómalausu skólastarfi og að hjálpa nemendum að skilja hvernig þekking mótast og að hún sé aldrei hlutlaus.

Nieto hefur bent á hversu miklu máli skiptir að móta fjölmenningarleg skólasamfélög þar sem hver nemandi fái tækifæri til að tengja námið við reynslu sína og þekkingu og byggt sé á framlagi hvers nemanda í kennslu. Þannig fái nemendur jafnframt tækifæri til virkrar þátttöku.

Gagnrýnin fjölmenningarhyggja

enska
Critical multiculturalism

Gagnrýnin fjölmenningarhyggja einkennist meðal annars af því að staða ýmissa minnihlutahópa er greind út frá gagnrýninni heildarsýn á viðkomandi samfélög og menntakerfi þeirra. Spurt er að því hvaða þættir í formgerð samfélaga orsaka og viðhalda ólíkri félagslegri stöðu.

Gagnrýnin uppeldisfræði

enska
Critical pedagogy

Gagnrýnin uppeldisfræði tekur mið af stöðu hvers nemenda, reynslu hans og þekkingu sem og félagslegri stöðu hans í samfélaginu. Hún notar raunverulegar aðstæður nemandans sem grunn fyrir nám hans, gerir hvorki lítið úr né hundsar hvað nemandinn veit og kann, aukinheldur hver hann er og hvaðan hann kemur. Gagnrýnin uppeldisfræði leggur áherslu á hugtök svo sem rödd, samræðu, jöfnuð, valdeflingu og félagslegt réttlæti. Gengið er út frá því að þekking sé aldrei hlutlaus og skólastarf taki ávallt mið af tilteknum félagslegum, sögulegum og pólitískum aðstæðum.

Samþætting

enska
Integration

Samþætting felur í sér að einstaklingur hefur sterk tengsl við bæði fyrrum og nýjan menningarheim sinn. Samþætting birtist oft með þeim hætti að einstaklingur tekur tillit til hins nýja menningarheims með því að tileinka sér þær hefðir og þau gildi sem þar ríkja auk þess sem hann leggur sig fram við að læra tungumálið. Á sama tíma viðheldur einstaklingurinn sinni menningu, hefðum, gildum og tungumáli að einhverju leyti. Samþættingu er oft lýst sem gagnkvæmu ferli á milli einstaklings og samfélags og er talin skila bestum árangri.

Inngilding

enska
Inclusion

Inngildingfelur í sér að viðurkenna og virða fjölbreytileikann og gera alltaf ráð fyrir honum í öllu starfi. Inngilding snýr að því að virkja allt fólk til þátttöku og gefa fjölbreyttum hópi fólks kleift að taka þátt í ákvarðanatöku.

Útlendingur

enska
Foreigner

Einstaklingur sem hefur ekki íslenskan ríkisborgararétt.

Innflytjandi

enska
Immigrant

Innflytjandi er einstaklingur sem er fæddur erlendis og á foreldra sem einnig eru fæddir erlendis, svo og báðir afar og ömmur. Innflytjandi getur bæði verið erlendur ríkisborgari og íslenskur ríkisborgari.

Önnur kynslóð innflytjenda

enska
Second-generation migrant

Innflytjendur af annarri kynslóð eru einstaklingar sem fæddir eru á Íslandi og eiga foreldra sem báðir eru innflytjendur.

Fólk með erlendan bakgrunn

enska
Persons with a foreign background

Fólk er talið hafa erlendan bakgrunn ef annað foreldrið er erlent. Einstaklingur sem fæddist erlendis en á foreldra sem báðir eru fæddir hér á landi telst einnig hafa erlendan bakgrunn.

Móðurmál

enska
Native language

Móðurmál má skilgreina á marga vegu en oftast er litið svo á að það sé fyrsta tungumál barns og það mál sem það binst tilfinningaböndum, sem foreldrar þess tala og þar sem hæfni barnsins er mest. Þetta er þó ekki alltaf raunin hjá fjöltyngdum börnum, því þau geta haft tvö eða fleiri tungumál að móðurmáli.

Málþroski í móðurmálum getur verið mismunandi eftir aðstæðum og málumhverfinu. Færni barna í erlendum móðurmálum er slakari ef henni er ekki viðhaldið. Hægt er að skilgreina móðurmál út frá uppruna, færni, hlutverki og auðkenningu (eigin eða annarra), en oftast virkar vel að skilgreina móðurmál minnihlutahópa út frá uppruna og því sem einstaklingi finnst sjálfum. Móðurmál eru einnig stundum kölluð heimamál (e. home language), upprunamál (e. language of origin) eða erfðamál (e. heritage languages).

Tvítyngi/Fjöltyngi

enska
Bilingualism/multilinguality

Hugtökin tvítyngi og fjöltyngi lýsa því þegar einstaklingur býr yfir hæfni til að nota fleiri en eitt tungumál. Tvítyngi og fjöltyngi er flókið hugtak sem felur í sér margs konar samsetningu tungumálaþekkingar og mismunandi færni á ólíkum sviðum (t.d. varðandi hlustunarskilning, lestur, tal og ritun). Fjöltyngdir einstaklingar nota tungumálin reglulega í mismunandi tilgangi á ólíkum vettvangi með mismunandi fólki.

Fjöltyngd börn eru margbreytilegur hópur og því hefur fjöltyngi margvíslegar og flóknar hliðar. Evrópuráðið skilgreinir fjöltyngi (e. plurilingualism) sem tungumálaforða einstaklings í heild, hvort sem hæfnin er lítil eða mikil, og öll tungumál, mállýskur og talshættir eru hluti þess. Almennt er litið svo á að fjöltyngi feli í sér menntagildi og sé grunnur að því að viðurkenna margbreytileika og meðvitund um jafngildi tungumála þrátt fyrir mismunandi tilgang og notkun.

Flóttafólk

enska
Refugees

Flóttamaður er samkvæmt skilningi Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) frá 1951 og viðauka hans frá 1967 skilgreindur sem; sá sem er utan við heimaland sitt og af ástæðuríkum ótta við að verða ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar í sérstökum félagsmálaflokkum, eða stjórnmálaskoðana, og getur ekki eða vill ekki, vegna slíks ótta, færa sér í nyt vernd þess lands. Flóttamaður getur einnig verið sá sem er ríkisfangslaus, og er utan þess lands, þar sem hann hafði reglulegt aðsetur, vegna ofsókna og getur ekki eða vill ekki, vegna ótta við slíka atburði, hverfa aftur þangað.

Umsækjandi um alþjóðlega vernd

enska
Asylum seeker

Sú manneskja sem óskar eftir alþjóðlegri vernd í öðru ríki er skilgreind sem umsækjandi um alþjóðlega vernd (hælisleitandi) þangað til umsókn viðkomandi hefur fengið endanlega afgreiðslu hjá stjórnvöldum. Með umsókninni er einstaklingurinn að biðja stjórnvöld um viðurkenningu á stöðu sinni sem flóttamaður, hugtak sem skilgreint er í lögum og Flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna sem Ísland er aðili að, eða ríkisfangslaus einstaklingur.

Kvótaflóttafólk

enska
Quota refugees

Kvótaflóttafólk er fólk sem hefur fengið boð frá stjórnvöldum um að koma og setjast að í ákveðnu ríki. Kvótaflóttafólk þarf ekki að ganga í gegnum það ferli og þá málsmeðferð sem umsækjendur um alþjóðlega vernd þurfa að ganga í gegnum.

Ríkisfangslaust fólk

enska
Stateless people

Ríkisfangslaus einstaklingur er einstaklingur sem ekkert ríki telur til ríkisborgara sinna samkvæmt landslögum, sbr. samning um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga frá árinu 1954.

Fylgdarlaus börn og ungmenni á flótta

enska
Unaccompanied minors

Barn sem kemur fylgdarlaust inn á yfirráðasvæði ríkis, svo lengi sem það hefur ekki í reynd verið tekið í umsjá foreldra eða fullorðins einstaklings sem ber ábyrgð á því samkvæmt lögræðislögum. Þetta á einnig við ef barnið er skilið eftir án fylgdar eftir að það kemur á yfirráðasvæði ríkis.

Alþjóðleg vernd

enska
International protection

Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sem endurspeglar efni Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, á sá sem sætir ofsóknum í heimalandi sínu vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana rétt á alþjóðlegri vernd sem flóttamaður hér landi.

1. mgr. 37. gr. útlendingalaga er svohljóðandi:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Dvalarleyfi af mannúðarástæðum

enska
Residence permit on humanitarian grounds

Samkvæmt 74. gr. útlendingalaga er heimilt að veita umsækjanda um alþjóðlega vernd, sem ekki telst flóttamaður eða ríkisfangslaus, dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða standi til þess ríkar ástæður á borð við alvarleg veikindi eða erfiðar aðstæður í heimalandi. Einnig er heimilt að veita dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hafi umsækjandi um alþjóðlega vernd dvalið hér á landi í að minnsta kosti 18 mánuði vegna meðferðar stjórnvalda á umsókn hans, að öðrum skilyrðum uppfylltum.

Maki hans, sambúðarmaki og börn hans undir 18 ára aldri sem ekki eru gift eða eru í sambúð geta sótt um dvalarleyfi  á grundvelli fjölskyldusameiningar skv. VIII. kafla  útlendingalaga, séu ekki skilyrði til að veita þeim dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Dvalarleyfi af mannúðarástæðum er veitt til eins árs í senn en við endurnýjun er heimilt að veita það til allt að tveggja ára. Dvalarleyfishafi fær, eins og handhafi alþjóðlegrar verndar, aðstoð við að koma undir sig fótunum hér á landi og getur stundað vinnu eða nám. Hann getur fengið útgefin ferðaskilríki fyrir útlending sem eru tekin gild í öllum ríkjum Evrópusambandsins og flestum öðrum ríkjum heims en hann getur þó ekki notað það til að fara til heimalands síns nema að hann fái til þess sérstaka heimild. Dvalarleyfi af mannúðarástæðum getur skapað leyfishafa rétt til ótímabundins dvalarleyfis.

Fjölskyldusameining

enska
Family reunification

Maki og börn flóttamanns, sem og foreldrar og systkini fylgdarlauss flóttabarns, eiga rétt á alþjóðlegri vernd og dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar við flóttamann hér á landi.

Fái einstaklingur veitta alþjóðlega vernd vegna fjölskyldusameiningar við flóttamann fær hann sömu réttindi og skyldur og flóttamaðurinn sem hann sameinast hér á landi. Hann er skilgreindur sem flóttamaður samkvæmt íslenskum lögum og alþjóðasamningum og getur því ekki ferðast til heimaríkis/heimaríkja án þess að eiga á hættu að alþjóðleg vernd hans og þar með dvalarleyfi hér á landi verði afturkallað.

Að öðrum kosti geta nánustu aðstandendur flóttamanna á Íslandi sótt um almennt dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar án alþjóðlegrar verndar. Aðrir fjölskyldumeðlimir eða ættingjar, svo sem fullorðin systkini, frænkur eða frændur, eiga ekki rétt á fjölskyldusameiningu við flóttamann.

Rétturinn til fjölskyldusameiningar flóttamanna nær ekki til aðstandenda einstaklinga sem fengu útgefið dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða í tengslum við umsókn sína um alþjóðlega vernd. Nánustu aðstandendur þeirra geta sótt um almennt dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar.

Staðalímynd

enska
Stereotype

Staðalímyndir eru fyrirframgefnar hugmyndir um einstaklinga út frá samfélagslegri stöðu þeirra, m.a. eftir uppruna, þjóðerni, húðlit, menningu og/eða trúarbrögðum, og byggja á alhæfingum sem standast ekki nánari athugun. Slíkar alhæfingar snúa oft að eiginleikum, einkennum og getu einstaklinga og samfélagshópa og eru oft grundvöllur fordóma.

Fordómar

enska
Prejudice

Fordóma má finna hjá hverjum og einum óháð kyni, aldri, uppruna, menningu eða stöðu. Fordómar eru lærðir og þeim getur verið erfitt að breyta og því mikilvægt að sporna gegn þeim strax í barnæsku en börn sem alast upp í samfélögum þar sem mikið er um fordóma eru mjög líkleg til að tileinka sér þá fordóma sem þar eiga sér stað.

Skilgreining Páls Skúlasonar á fordómum er að fordómar séu „staðhæfing eða skoðun sem við trúum og látum hugsun okkar stjórnast af án þess nokkurn tíma að draga þessa staðhæfingu eða skoðun í efa eða gagnrýna hana.”

Kristján Kristjánsson skilgreinir fordóma sem „dóm sem er felldur um einstaklinga eða hópa fólks án þess að einstaklingur hafi kynnt sér réttmæti og rök máls af sanngirni og því hafa þeir sem hafa fordóma ekki góðar ástæður fyrir skoðunum sem felast í dómnum.“

Fordómar hafa mismunandi birtingarmyndir og geta þeir verið sýnilegir og ósýnilegir, eða beinir og óbeinir. Að sýna fyrirlitningu í framkomu eða orðalagi, að hunsa einstakling eða veita honum lélegri þjónustu, td. vegna uppruna, eru dæmi um birtingarmyndir fordóma.

Fordómar byggja yfirleitt á staðalímyndum sem hafa myndast í samfélaginu og beinast yfirleitt gegn einstaklingum eða hópum sem sá sem er með fordómana þekkir ekki, enda má rekja uppruna flestra fordóma til fáfræði.

Ómeðvituð hlutdrægni

enska
Unconscious bias

Ómeðvituð hlutdrægni felur í sér að einstaklingar, hópar og/eða stofnanir mismuna fólki án þess að átta sig raunverulega á því. Ómeðvituð hlutdrægni felur í sér ómeðvitaðar hugsanir, tilfinningar, hugmyndir, viðbrögð, skynjun og viðhorf til fólks sem byggir meðal annars á staðalímyndum í umhverfinu og öðrum mótandi þáttum sem við höfum þróað með okkur og fengið í arf frá fyrri kynslóðum. Hún felur í sér að við sjálfkrafa tökum einn hóp fólks fram yfir annan vegna þessara viðhorfa og skynjunar, til dæmis á grundvelli húðlits, uppruna og/eða menningar.

Útlendingaandúð

enska
Xenophobia

Útlendingaandúð er hugtak sem notað er til þess að lýsa fordómum og hatri gagnvart útlendingum, meðal annars innflytjendum og flóttafólki. Undirstaða útlendingaandúðar eru neikvæðar staðalímyndir um útlendinga sem oft eru skilgreindir sem „hinir“ til þess að aðskilja þá frá þeim sem eru innfæddir ("við") og ýta undir jaðarsetningu þeirra í samfélaginu.

Útlendingaandúð er nátengt þjóðernishyggju. Birtingarmyndir útlendingaandúðar eru mismunandi, ein algengasta birtingarmynd slíkrar andúðar er í dag andúð í garð múslima.

Þjóðernishyggja

enska
Nationalism

Þjóðernishyggja felur í sér það viðhorf að vilja varðveita sérkenni og sérstöðu þjóðar sinnar, sjálfstæði og menningu og hamla gegn erlendum áhrifum. Oft fylgir þjóðernishyggju sú skoðun að blöndun fólks af mismunandi uppruna sé ekki góð fyrir samfélagið.

Kynþáttahyggja

enska
Racism

Hin hefðbundna skilgreining á rasisma, eða kynþáttahyggju, felur í sér þá hugmynd að mannkynið skiptist í kynþætti, eða kynstofna, sem áberandi munur er á. Sá munur á að felast í eðlislægum eiginleikum sem eru álitnir náttúrulegir, eðlislægir og óbreytanlegir og eru notaðir til þess aðgreina einn kynþátt frá öðrum og greina með því á milli hins æðri kynþáttar og þeirra sem eru óæðri og litið er niður á. Einstaklingar eru síðan fyrst og fremst metnir út frá þeim kynþætti sem þeir tilheyra og þeim einkennum sem rasistar telja hópinn hafa.

Slík flokkun á mannkyninu í kynþætti er gölluð. Rannsóknir hafa sýnt fram á að mannkynið er eitt kyn og skiptist ekki í kynstofna eða kynþætti enda eru allir einstaklingar með svipaða líffræðilega eiginleika þó vissulega megi finna fjölbreytni í húðlit, útliti og hegðun. Á meðal þekktustu birtingarmynda rasisma eru fordómar vegna húðlitar, sem birtast til dæmis sem niðurlægjandi ummæli og uppnefni sem tengjast húðlit.

Kerfisbundinn rasismi

enska
Systemic racism

Með kerf­is­bundnum ras­isma er átt við að kyn­þátta­for­dóma megi finna í lög­gjöf, regluverki og verk­lagi stofn­ana og sam­taka í sam­fé­lag­inu. Kerfisbundinn rasismi birtist til dæmis í verki sem mismunun vegna húð­lit­ar, upp­runa og menn­ing­ar, til dæmis í heilbrigð­is­þjón­ustu, hús­næð­is­mál­um, mennt­un, atvinnu og rétt­ar­kerf­inu sem og pólitískri þátttöku.

Kynþáttamörkun

enska
Racial profiling

Kynþáttamörkun á við um það þegar kyn­þáttur og/eða húð­litur er not­aður til þess að skilgreina ein­stak­linga eða hópa fólks og mis­munun gagn­vart þeim er rétt­lætt á þeim forsendum. Slík flokkun fólks bygg­ist oft á ómeð­vit­aðri hlut­drægni. Í lög­gæslu birt­ist þetta með þeim hætti að ein­stak­lingur eða hópur fólks er grun­aður um sak­næmt athæfi vegna kynþáttar og/eða húð­litar frekar en sönn­un­ar­gagna. 

Menningarlegur rasismi

enska
Cultural racism

Menningarlegur rasismi felur í sér að líffræðileg flokkun á fólki er lögð til hliðar og áhersla er lögð á menningarlega og þjóðernislega þætti eins og trú, menningu, siði og gildi til þess að aðgreina fólk í hópa sem eðlislægur munur er talinn vera á.

Í stað þess að kynþættir séu notaðir til þess að draga fram mun á fólki eru menningarlegir og þjóðernislegir þættir notaðir til þess að upphefja ákveðna menningarhópa og þjóðir á kostnað þeirra sem eru taldir óæðri. Það getur til að mynda átt við innflytjendur sem hafa aðra menningu en er ríkjandi í því samfélagi sem þeir setjast að í. Þessi munur á fólki er dreginn fram í þeim tilgangi að mismuna þeim sem eru taldir óæðri, að jaðarsetja þá og aðskilja þá frá þeim sem taldir eru hafa yfirburði og vilja styrkja stöðu sína og völd.

Í hugmyndum um menningarlegan rasisma er gerður greinarmunur á menningu út frá tungumáli, trú, hefðum og þjóðernislegum uppruna til þess að sýna fram á hvernig einn hópur fólks er í eðli sínu ólíkur öðrum. Ein algengasta birtingarmynd menningarlegs rasisma á Vesturlöndunum snýr að trúarbrögðum ólíkra þjóðfélagshópa en trúarbrögð hafa lengi verið eitt það helsta sem skilur að menningarsamfélög. Sá menningarlegi rasismi sem er einna mest áberandi á Vesturlöndum beinist gegn múslimum.

Íslamófóbía

enska
Islamophobia

Íslamófóbía lýsir andúð gagnvart múslimum og íslamstrú á grundvelli staðalímynda. Íslamófóbísk hegðun birtist meðal annars í munnlegum svívirðingum og hatursorðræðu, líkamsárásum og öðru ofbeldi gagnvart múslímum á almenningssvæðum, brennu á trúarritum og árásum á mosku.

Áhrif íslamófóbíu eru meðal annars þau að múslimar verða fyrir mismunun, aðkasti, hatursorðræðu og ofbeldi auk þess sem hún getur líka stuðlað að lagabreytingum (til dæmis slæðubann, bann við halal slátrun, bann við bænaturnum) sem brjóta á borgaralegum réttindum múslíma.

Hvítleiki

enska
Whiteness

Hvítleiki er hugtak sem nær yfir einkenni og reynslu sem tengist hvítum húðlit og þann ávinning sem hvítt fólk hefur fram yfir aðra vegna húðlitar. Í vestrænum ríkjum er hvítleiki talinn vera normið og fólk af öðrum uppruna og húðlit er talið öðruvísi.

Hvít forréttindi

enska
White privilege

Hvít forréttindi eru forréttindi sem einstaklingar sem eru með hvítan húðlit njóta góðs af fram yfir fólk með annan húðlit í vestrænum ríkjum. Hvít forréttindi eru kerfisbundin og ná meðal annars til samfélagslegra, menningarlegra, efnahagslegra og pólitískra þátta og þess ávinnings sem hvítt fólk hefur fram yfir annað fólk. Eitt af helstu einkennum hvítra forréttinda er þegar einstaklingar (og vestræn menning) gera ráð fyrir að þeirra reynsla og menning sé „venjuleg“ eða réttust og annað er talið öðruvísi og jafnvel óæðra.

Menningarnæmi

enska
Cultural sensitivity

Menningarnæmi felur í sér meðvitund um menningarmun á meðal fólks án þess að hann sé notaður til aðgreiningar. Menningarnæmi er hæfni sem gerir okkur kleift að bregðast við af virðingu og samkennd gagnvart fólki, til dæmis af ólíkum uppruna, þjóðernum, menningu og trúarbrögðum. Menningarnæmi birtist meðal annars í hegðun og viðhorfum sem og skilningi á ólíkri reynslu.

Mismunun

enska
Discrimination

Mismunun á sér stað þegar einstaklingi er neitað um réttindi sín eða þau eru skert verulega á ómálefnalegum grundvelli, til dæmis vegna kyns, litarhafts, uppruna, þjóðernis, menningar, fötlunar eða efnahags.

Margþætt mismunun

enska
Multiple discrimination

Margþætt mismunun á sér stað þegar einstaklingur sem tilheyrir fleiri en einum jaðarsettum hópi verður fyrir mismunun vegna nokkurra mismunandi þátta. Þannig getur kona af erlendum uppruna til dæmis orðið fyrir mismunun vegna þess að hún er innflytjandi og vegna þess að hún er kona.

Samtvinnun

enska
Intersectionality

Samtvinnun er femínísk kenning um það hvernig pólitískar og félagslegar mismunabreytur tvinnast saman og mynda mismunandi jaðarsetningar hjá einstaklingum. Dæmi um mismunabreytur sem geta tvinnast saman, tvær eða fleiri, eru kyn, kyneinkenni, kynhneigð, uppruni, þjóðerni, húðlitur, trúarbrögð, fötlun og stétt. Samtvinnun mismunabreyta margfalda þá kúgun og fordóma sem jaðarsettir einstaklingar mæta. Til dæmis mætir svört kona ekki aðeins kvenfyrirlitningu og rasisma í samfélaginu, heldur mætir hún einnig fordómum og kúgun vegna samsetningar þessara tveggja mismunabreyta.

Jaðarsetning

enska
Marginalisation

Jaðarsetning er ferli sem felur í sér að ákveðnum hópum samfélagsins er ýtt út á jaðar þess, oft í þeim tilgangi að mismuna þeim eða viðhalda mismunun gagnvart þeim. Jaðarsettir hópar standa oft frammi fyrir hindrunum sem aðrir einstaklingar og hópar samfélagsins standa ekki frammi fyrir. Það getur til dæmis birst sem skert aðgengi að upplýsingum, menntun, atvinnu og völdum. Það birtist einnig sem skert aðgengi að grundvallarréttindum og þeim lífsgæðum sem einstaklingurinn þarf til þess að uppfylla grunnþarfir sínar.

Jaðarsetning einstaklinga og hópa getur til dæmis verið til komin vegna félags- og efnahagslegrar stöðu, uppruna, húðlitar, trúar- og lífsskoðana, aldurs, starfs, kyns, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna, flóttabakgrunns, kynferðisofbeldis, fötlunar, heimilisleysis, ávana- og vímuefnanotkunar eða annarra þátta.

Jaðarsetning í garð einstaklinga og hópa birtist til dæmis sem óvirðing af höndum annarra einstaklinga, fordómar, útlendingaandúð, rasismi, hatursorðræða, (ör)áreitni, mismunun, óréttlæti, ójöfnuður, ofbeldi, kynferðisleg áreitni, kynbundið ofbeldi, þöggun um tilvist einstaklinga og í sumum tilfellum er tilvist þeirra sem eru jaðarsett litin hornauga af öðrum í samfélaginu.

Öráreitni

enska
Microaggression

Öráreitni eru hversdagslegar athafnir, athugasemdir eða aðrir umhverfisþættir sem eru niðurlægjandi fyrir fólk sem tilheyrir jaðarsettum hópum. Um er að ræða endurtekið áreiti sem byggir á staðalímyndum og ýta undir jaðarsetningu fólks.

Menningarnám

enska
Cultural appropriation

Menningarnám felur í sér arðrán yfirráðandi hópa á þáttum úr menningu undirokaðra hópa fólks, til dæmis sér til hagsbóta eða skemmtunar.

Trúfrelsi

enska
Freedom of religion

Trúfrelsi er frelsi einstaklings til að velja hvort og þá hvaða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi þeir vilja tilheyra.

Öfgahyggja

enska
Extremism

Öfgahyggja felur í sér að einstaklingur búi yfir ákveðnum skoðunum eða hugmyndum sem hann telur vera einstakar. Einstaklingurinn telur sínar skoðanir vera þær einu réttu og ekkert svigrúm er fyrir aðrar skoðanir né vilji til þess að skilja önnur sjónarmið, aðrar hugmyndir eða skoðanir. Þær skoðanir sem einstaklingurinn býr yfir stangast yfirleitt á við ríkjandi gildi og viðmið samfélagsins og formgerð þess og geta til dæmis falið í sér að hafna hugmyndafræði lýðræðis og réttarríkisins.

Ofbeldisfull öfgahyggja

enska
Violent extremism

Ofbeldisfull öfgahyggja er ferli sem felur í sér að einstaklingur eða hópur fólks tileinkar sér öfgafullar skoðanir, hugmyndir, gildi og/eða viðmið og er tilbúinn til þess að beita, hvetja til og/eða greiða leiðina fyrir ofbeldi til þess að ná fram markmiðum sínum. Þessi markmið geta falið í sér hugmyndafræðilegar, pólitískar eða trúarlegar breytingar á samfélaginu sem stangast á við ríkjandi gildi, viðmið og formgerðir samfélagsins. Um er að ræða ferli sem getur leitt til hryðjuverka.

Hatursorðræða

enska
Hate speech

Hatursorðræða er flókið hugtak og ekki er til nein ein alþjóðlega viðurkennd skilgreining eða skilningur á því.

Ráðherraráð Evrópuráðsins byggir á eftirfarandi skilgreiningu: Öll tjáning sem dreifir, hvetur til, stuðlar að eða réttlætir kynþáttahatur, útlendingahatur, gyðingahatur eða annars konar hatur sem byggist á umburðarleysi, þar á meðal umburðarleysi sem er tjáð með herskárri þjóðernisstefnu eða þjóðhverfum sjónarmiðum, mismunun og fjandskap gegn minnihlutahópum, farandverkafólki og fólki af erlendum uppruna.

Hatursorðræða elur á fordómum og hatri og getur ýtt undir jaðarsetningu og mismunun einstaklinga og hópa fólks. Hatursorðræða getur verið undanfari hatursglæpa og getur ýtt undir þess konar ástand í samfélögum að ákveðnir hópar fólks eru lítilsvirtir og mismunun þeirra almennt viðurkennd. Þannig getur hatursorðræða orðið til þess að brotið er á mannréttindum einstaklinga og hópa. Í alvarlegustu tilvikum leiðir það til samfélagsrofs.

Hatursglæpir

enska
Hate crimes

Hatursglæpur er verknaður sem brýtur í bága við hegningarlög og byggir á neikvæðum viðhorfum geranda til brotaþola og því hver brotaþolinn er, til dæmis með tilliti til uppruna, þjóðernis, menningar, litarhafts eða trúar. Hatursglæpur er ekki einn ákveðinn verknaður eða glæpur heldur birtist meðal annars sem ógnun, hótanir, skemmdir á eignum, líkamsárás, morð eða önnur brot á hegningarlögum. Það er ásetningurinn eða ástæðan fyrir glæpnum sem greinir hatursglæpi frá öðrum glæpum.

Hryðjuverk

enska
Terrorism

Hryðjuverk hafa verið skilgreind sem skipulögð beiting á ofbeldi eða hótun um beitingu ofbeldis til þess að skapa ótta eða hræðslu til þess að ná fram pólitískum,  trúarlegum eða hugmyndafræðilegum markmiðum sem geta falið í sér umbreytingar á samfélaginu sem stangast á við ríkjandi gildi og viðmið. Slík markmið geta til dæmis falið í sér að stuðla að samfélagslegri pólun eða klofningi (e. social polarisation) og skapa vantraust og ótta á milli hópa fólks í sama samfélagi eða á milli almennra borgara og yfirvalda. Annað markmið getur verið að þrýsta á stefnubreytingu hjá stjórnvöldum í því ríki sem verður fyrir hryðjuverkaárás og taka þar með af þeim völdin. Hryðjuverk beinast yfirleitt gegn óbreyttum borgurum.

Heimildaskrá

Banks, A. J. (2007). Educating Citizens in a Multicultural Society (2. útg.).

Björk Helle Lasse, Fríða B. Jónsdóttir, Hildur Blöndal, Aðalheiður Steingrímsdóttir, Hulda Karen Daníelsdóttir og Kolbrún Vigfúsdóttir. (2007). Íslenskur veruleiki, samfélag og skóli. Í Hanna Ragnarsdóttir, Elsa Sigríður Jónsdóttir og Magnús Þorkell Bernharðsson (ritstj.), Fjölmenning á Íslandi (bls. 151-184). Rannsóknastofa í fjölmenningarfræðum KHÍ og Háskólaútgáfan.

Hanna Ragnarsdóttir. (2019). Menntun og þátttaka í nýju landi: reynsla innflytjenda, flóttafólks og skóla. Tímarit um uppeldi og menntun, 28(2), 145-159.

Hanna Ragnarsdóttir. (2007a). Fjölmenningarfræði. Í Hanna Ragnarsdóttir, Elsa Sigríður Jónsdóttir og Magnús Þorkell Bernharðsson (ritstj.), Fjölmenning á Íslandi (bls. 17-42). Rannsóknastofa í fjölmenningarfræðum KHÍ og Háskólaútgáfan.

Hanna Ragnarsdóttir. (2007b). Börn og fjölskyldur í fjölmenningarlegu samfélagi og skólum. Í Hanna Ragnarsdóttir, Elsa Sigríður Jónsdóttir og Magnús Þorkell Bernharðsson (ritstj.), Fjölmenning á Íslandi (bls. 249-272). Reykjavík: Rannsóknastofa í fjölmenningarfræðum KHÍ og Háskólaútgáfan.

Hermína Gunnþórsdóttir. (2021). Þegar enginn er á móti er erfitt að vega salt: Reynsla nemenda af erlendum uppruna af íslenskum grunnskóla. Tímarit um uppeldi og menntun, 30(1), 51-70.

Hinsegin frá Ö til A. (e.d.). https://otila.is/

Íslensk nútímamálsorðabók. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Kimberle Crenshaw. (1991). Mapping the Margins: Intersectionality, Identity Politics,and Violence against Women of Color. Stanford Law Review, 43(6),1241-1299.

Kristín Aðalsteinsdóttir, Guðmundur Engilbertsson og Ragnheiður Gunnbjörnsdóttir. (2007). Fjölmenningarleg kennsla í Manitoba í Kanada, í Noregi og á Íslandi. Tímaritum menntarannsóknir, 4, 137-156.

Kristján Þór Sigurðsson. (2014). Moskumálið 2013. Ótti og andúð gegn byggingu mosku. Þjóðarspegillinn.

Lög um útlendinga nr. 80/2016.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti. (2020). Leiðarvísir um stuðning við móðurmál og virkt fjöltyngi í skóla- og frístundastarf.

Miriam Petra Ómarsdóttir Awad og Chanel Björk Sturludóttir. (13. janúar 2022). Hvaðan ertu? [myndband]. Youtube.

Nieto, S. (2010). Language, culture and teaching: Critical perspectives (2.útg.).

Oddný Sturludóttir. (2015). Gagnrýni og von : kenningar og hugmyndir Nieto og Cummins um fjölmenningarlega menntun og gildi þeirra fyrir íslenskt skólastarf [óútgefin meistararitgerð]. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/20701

Réttindagátt.is

Sema Erla Serdaroglu. (2021). Ofbeldisfull öfgahyggja og ungt fólk: Staðaþekkingar og mikilvægi forvarna [óútgefin meistararitgerð]. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/39580

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu. (2009). Hate Crime Laws. A Practical Guide.