Námskeið Æskulýðsvettvangsins

Ungmenni

Það er mikilvægt fyrir alla þá sem starfa með börnum og ungmennum að vera meðvitaðir um skyldur sínar og ábyrgð, að geta lesið í vísbendingar um að vanræksla eða ofbeldi, hvort sem það er andlegt, líkamlegt, rafrænt og/eða kynferðislegt, eigi sér stað og vita hvernig bregðast á við ef slík mál koma upp í félagsstarfi.

Þeim félagasamtökum sem saman mynda Æskulýðsvettvanginn og aðildarfélögum þeirra stendur til boða að fá að kostnaðarlausu námskeið sem snúa að hagsmunamálum barna og ungmenna í íþrótta- og æskulýðsstarfi.

Verndum þau

Æskulýðsvettvangurinn hefur frá árinu 2010 staðið fyrir námskeiðinu Verndum þau. Námskeiðið er byggt á efni bókar með sama nafni og fjallar um hvernig bregðast á við grun um ofbeldi og vanrækslu gegn börnum og ungmennum. Höfundar bókarinnar, Ólöf Ásta Farestveit uppeldis- og afbrotafræðingur og Þorbjörg Sveinsdóttir M.Sc. í sálfræði, sjá um kennslu á námskeiðinu. Báðar starfa þær í Barnahúsi og hafa mikla reynslu af barnaverndarmálum.

Á námskeiðinu er m.a farið yfir:

 • Tilkynningaskyldu starfsmanna sem vinna með börnum og ungmennum.
 • Líkamlegt, andlegt og kynferðislegt ofbeldi og vanrækslu hvers konar.
 • Hvernig taka skuli á móti ofbeldisfrásögn.
 • Reglur í samskiptum við börn og ungmenni.
 • Ýmis atriði sem gott er fyrir vinnuveitendur að hafa í huga.
 • Úrræði sem í boði eru í samfélaginu fyrir börn og unglinga sem eru þolendur ofbeldis.

Einelti í íþrótta- og æskulýðsstarfi

Einelti er ekki liðið innan þeirra félagasamtaka sem mynda Æskulýðsvettvanginn. Mjög mikilvægt er að öllum líði vel í leik og starfi og að sá grundvallarréttur að fá að vera óáreittur sé virtur. Mikilvægt er fyrir þá sem starfa með börnum og ungmennum að þekkja mismunandi birtingarmyndir eineltis, hvernig bregðast eigi við einelti í íþrótta- og æskulýðsstarfi og hvaða verkfæri eru til staðar til þess að vinna úr því innan Æskulýðsvettvangsins.

Einelti í íþrótta- og æskulýðsstarfi er nýtt námskeið um einelti, forvarnir og úrvinnslu eineltismála hjá Æskulýðsvettvanginum. Námskeiðið er sérsniðið fyrir þau samtök sem eiga aðild að Æskulýðsvettvanginum og aðildarfélög þeirra. Í erindinu er m.a. farið yfir eftirfarandi atriði:

 • Hvað er einelti og hverjar eru afleiðingar þess?
  Hver eru einkenni eineltis?
  Hverjar eru birtingarmyndir eineltis?
 • Hvernig á að bregðast við einelti í íþrótta- og æskulýðsstarfi?
 • Hvaða úrræði eru í boði fyrir þau félagasamtök sem mynda Æskulýðsvettvanginn og aðildarfélög þeirra?

Æskulýðsvettvangurinn tekur nú við bókunum á námskeið fyrir árið 2018. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar og bóka námskeið hjá Semu Erlu, framkvæmdastýru Æskulýðsvettvangsins, með því að senda póst á aev@aev.is