Barnavernd - netnámskeið

Markmiðið með námskeiðinu er að auka þekkingu starfsfólks og sjálfboðaliða í íþrótta- og æskulýðsfélögum um land allt á einelti, ofbeldi og áreitni sem börn og ungmenni geta orðið fyrir og afleiðingunum af því.

Það er mikilvægt fyrir alla þá sem starfa með börnum og ungmennum að vera meðvituð um skyldur sínar og ábyrgð.

Starfsfólk og sjálfboðaliðar sem vinna með börnum og ungmennum þurfa að þekkja mismunandi birtingarmyndir kynferðisofbeldis, eineltis, vanrækslu og annars ofbeldis sem börn og ungmenni geta orðið fyrir og vita hvernig bregðast eigi við þegar slíkt kemur upp.

Tilgangurinn með því að auka þekkingu starfsfólks og sjálfboðaliða sem starfa með börnum og ungmennum á einelti, ofbeldi og áreitni sem þau geta orðið fyrir er að reyna að koma í veg fyrir að slíkt komi upp í íþrótta- og æskulýðsstarfi og gera börnum og ungmennum auðveldara með að fá úrlausn slíkra mála þegar þau koma upp.

Námskeiðið skiptist í tíu kafla og inniheldur fræðslu um líkamlegt og andlegt ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi, vanrækslu, samskiptavanda og einelti - og hvernig bregðast eigi við grun um slíkt, með áherslu á börn og ungmenni. Í lok hvers kafla er stutt krossapróf sem þarf að ljúka til þess að halda áfram. Að loknu námskeiðinu geta þátttakendur fengið skírteini með staðfestingu á því að þeir hafi lokið námskeiðinu.

Netnámskeið Æskulýðsvettvangsins í barnavernd er öllum opið og það er ókeypis.

Opna vef netnámskeiðsins