Samþykktir Æskulýðsvettvangsins

Samþykktir

1. gr.

Félagið heitir Æskulýðsvettvangurinn.

2. gr.

Heimili félagsins og varnarþing er í Sigtúni 42, 105 Reykjavík.

3. gr.

Æskulýðsvettvangurinn vinnur að sameiginlegum hagsmunamálum barna og ungmenna. Tilgangur og markmið félagsins er að stuðla að samræðu og samstarfi aðildarfélaganna á sviði leiðtogaþjálfunar, fræðslu- og forvarnarmála, útbreiðslu og kynningar sem og á öðrum sviðum eftir því sem þurfa þykir. Tilgangi sínum og markmiðum hyggst félagið ná með því að standa fyrir námskeiðum, ráðstefnum og öðrum sameiginlegum verkefnum sem lúta að hagsmunum barna og ungmenna.

4. gr.

Stofnfélagar eru:
Bandalag íslenskra skáta, Hraunbæ 123, 110 Reykjavík, kt. 440169-2879.
KFUM og KFUK á Íslandi, Holtavegi 28, 104 Reykjavík, kt. 690169-0889.
Slysavarnafélagið Landsbjörg, Skógarhlíð 14, 105 Reykjavík, kt. 560499-2139.
Ungmennafélag Íslands, Sigtúni 42, 105 Reykjavík, kt. 660269-5929.

5. gr.

Aðild að Æskulýðsvettvanginum geta fengið þau æskulýðsfélög sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:

- Eru viðurkennd landssamtök æskulýðsfélaga sem starfa fyrir ungt fólk alls staðar að af landinu og starfa með börnum og ungmennum á vettvangi frítímans.
- Eru lýðræðisleg og frjáls (Non Governmental Organisations, NGO).

Umsókn um aðild að félaginu skal senda stjórn sem tekur afstöðu til umsóknarinnar.

6. gr.

Stjórn félagsins skal skipuð framkvæmdastjórum aðildarfélaga Æskulýðsvettvangsins. Aðildarfélög skipta með sér formennsku á tveggja ára fresti og er formaður kosinn af stjórn. Stjórn skiptir með sér verkum. Formaður boðar stjórnarmenn á stjórnarfundi. Dagleg umsjón félagsins er á ábyrgð formanns. Firmaritun félagsins er í höndum meirihluta stjórnar.

7. gr.

Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Aðalfundur skal haldinn fyrir lok apríl ár hvert og skal stjórnin boða til hans með minnst tveggja vikna fyrirvara. Hvert aðildarfélag hefur þrjá fulltrúa sem hafa atkvæðisrétt á aðalfundi.

Á aðalfundi skal dagskrá vera sem hér segir:

  1. Starfsskýrsla stjórnar lögð fram til umræðu og samþykktar.
  2. Ársreikningar lagðir fram til umræðu og samþykktar.
  3. Fjárhags- og starfsáætlun kynnt.
  4. Lagabreytingar.
  5. Árgjald starfsársins.
  6. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga.
  7. Önnur mál.

8. gr.
Tillögur um lagabreytingar skulu berast stjórn Æskulýðsvettvangsins skriflega eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund og skulu kynntar aðildarfélögum. Lagabreytingar öðlast aðeins gildi með auknum meirihluta (2/3) atkvæða á aðalfundi.

9. gr.

Rekstrarafgangi/hagnaði af starfsemi félagsins skal varið í samræmi við tilgang og markmið félagsins.

10.gr.
Tilkynning um úrsögn aðildarfélags skal berast skriflega til stjórnar Æskulýðsvettvangsins. Eftir afgreiðslu hennar á aðalfundi öðlast úrsögnin formlega gildi. Leggist aðildarfélag niður, fellur aðild þess að Æskulýðsvettvanginum sjálfkrafa úr gildi.

11. gr.

Ákvörðun um slit félags verður tekin á aðalfundi með auknum meirihluta (2/3 atkvæða) og renna eignir þess til aðildarfélaga Æskulýðsvettvangsins.

Samþykkt á aðalfundi Æskulýðsvettvangsins 26. apríl 2017