Verkefni

Æskulýðsvettvangurinn vinnur gegn einelti, kynferðisofbeldi og öðru ofbeldi og/eða óæskilegri hegðun gagnvart börnum og ungmennum. Með fræðslu og forvörnum auk annarra verkefna er stuðlað að vitundarvakningu í samfélaginu og auknu öryggi barna og ungmenna í íþrótta- og æskulýðsstarfi.

Æskulýðsráð ríkisins

Hlutverk Æskulýðsráðs ríkisins er samkvæmt æskulýðslögum að vera stjórnvöldum til ráðgjafar í æskulýðsmálum, gera tillögur um áherslur og stefnumótun í málaflokknum, veita umsagnir um mál er varða æskulýðsstarfsemi, leitast við að efla æskulýðsstarfsemi félaga, félagasamtaka, skóla og sveitarfélaga og stuðla að samvinnu þessara aðila um æskulýðsmál, efna til funda og ráðstefna um æskulýðsmál, taka þátt í erlendu samstarfi um æskulýðsmál eftir nánari ákvörðun ráðherra, stuðla að þjálfun og menntun forystufólks, leiðbeinenda og sjálfboðaliða og sinna öðrum þeim verkefnum sem ráðherra kann að fela því.

Ráðherra skipar níu fulltrúa í Æskulýðsráð. Fimm fulltrúar skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu æskulýðssamtaka, samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Tveir fulltrúar skulu tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Ráðherra skipar formann og varaformann Æskulýðsráðs án tilnefningar. Skipunartími ráðsins er tvö ár.

Framkvæmdastýra Æskulýðsvettvangsins situr í Æskulýðsráði ríkisins fyrir hönd samtakanna.

Ekkert hatur

Eitt af markmiðum Æskulýðsvettvangsins er að stuðla að aukinni vitundarvakningu barna, ungmenna og fullorðinna um einelti og hatursorðræðu á netinu.

Árið 2013 var farið af stað með verkefnið Ekkert hatur – orðum fylgir ábyrgð á Íslandi. Hópur stofnana og samtaka á Íslandi stendur á bak við verkefnið og er hluti af verkefni Evrópuráðsins sem ber heitið No Hate Speech Movement. Fyrir hönd Mennta- og menningarmálaráðuneytisins annast Heimili og skóli, SAFT, SAMFÉS, Landssamband æskulýðsfélaga og Æskulýðsvettvangurinn útfærslu verkefnisins hér á landi í samstarfi við Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Verkefninu er ætlað að vekja athygli á hatursorðræðu á netinu, vekja ungt fólk til umhugsunar og hvetja það til að bregðast við. Verkefnið stendur fyrir jafnrétti, virðingu, mannréttindum og fjölbreytileika. Því er beint gegn einelti, hatursorðræðu, kynþáttafordómum og mismunun á netinu.

Auk þess að taka þátt í Ekkert hatur verkefninu stendur Æskulýðsvettvangurinn fyrir vitundarvakningu með námskeiði um hatursorðræðu og börn og ungmenni fyrir þau félagasamtök sem saman mynda vettvanginn, aðildarfélög þeirra og aðra áhugasama.

Ráðgjöf og stuðningur

Einn liður í því að vinna að auknu öryggi barna og ungmenna í íþrótta- og æskulýðsstarfi felur í sér að stuðla að því að öll félagasamtök búi yfir viðbragðsáætlunum, siðareglum, jafnréttis- og mannréttindastefnu, verklagsreglum og öðrum verkfærum sem eru til þess fallin að tryggja heilbrigðar, uppbyggjandi og vandaðar aðstæður fyrir börn og ungmenni í því umhverfi og stuðla að velferð þeirra og vellíðan.

Innan Æskulýðsvettvangsins má finna mikla reynslu og þekkingu á slíku starfi og öllum er frjálst að fá ráðgjöf og stuðning við gerð slíkra verkfæra og innleiðingu þeirra hjá sínum félagasamtökum.