Einelti og önnur óæskileg hegðun

Einelti

Einelti er ekki liðið innan þeirra félaga sem saman mynda Æskulýðsvettvanginn. Það er mjög mikilvægt að öllum líði vel í leik og starfi innan Æskulýðsvettvangsins og að sá grundvallarréttur, að fá að vera óáreittur, sé virtur. Því er mikilvægt að bregðast strax við málum sem koma upp í starfinu og leita allra leiða til þess að leysa úr þeim hratt og vel.

Skilgreining á einelti

Einelti er endurtekin ótilhlýðileg og ámælisverð háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni og annað endurtekið andlegt, líkamlegt og stafrænt ofbeldi fellur undir þetta. Hér er ekki átt við skoðanaágreining eða hagsmunaárekstur sem kann að koma upp í æskulýðs- og íþróttastarfi.

Einelti getur þrifist alls staðar þar sem samskipti eiga sér stað, án tillits til aldurs fólks, vitsmunaþroska, efnahags, stéttar, stöðu eða búsetu. Einelti getur því komið upp hjá öllum aldursflokkum, bæði börnum og fullorðnum. Þá á einelti sér margar mismunandi birtingarmyndir og getur verið andlegt, líkamlegt og/eða stafrænt.

Aðgerðaáætlun Æskulýðsvettvangsins gegn einelti og annarri óæskilegri hegðun

Aðgerðaráætlunin á að tryggja að öllum geti liðið vel í leik og starfi innan félaganna sem mynda Æskulýðsvettvanginn og að brugðist verði hratt og vel við málum sem koma upp í starfinu. Allir sem starfa innan Æskulýðsvettvangsins eiga að þekkja áætlunina og þeim ber að virða hana og vinna eftir til að tryggja að þeir sem taka þátt í starfi innan Æskulýðsvettvangsins geti notið sín á jákvæðan hátt. Markmið áætlunarinnar er að auka gæði þess góðs starfs sem nú er þegar unnið innan félaganna og vera leiðbeinandi í forvörnum sem og úrvinnslu mála.

Aðgerðaráætlunin skal vera aðgengileg öllum ábyrgðaraðilum, þátttakendum og foreldrum/forráðamönnum þeirra. Ábyrgðaraðilar skulu þekkja verkferlana og leitast við að leysa úr ágreiningi um leið og hann kemur upp.

Fagráð Æskulýðsvettvangsins

Á vegum Æskulýðsvettvangsins starfar fagráð sem tekur á eineltismálum sem upp koma innan aðildarfélaganna og ekki tekst að leysa úr innan félaganna. Fagráðið er skipað að minnsta kosti tveimur óháðum einstaklingum sem hafa þekkingu, menntun og reynslu sem nýtist við úrlausn samskiptavanda og eineltis.

Hlutverk fagráðsins er annars vegar að leita að viðunandi niðurstöðu í málum með sáttum sé þess nokkur kostur og hins vegar að veita félögum ráðgefandi álit á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga, sem fagráðinu hafa borist í viðkomandi máli. Telji fagráðið þörf á því skal það leita til óháðra sérfræðinga á sviði eineltismála við að leysa úr málinu. Fagráðið skal einnig sinna eftirfylgni í málum, sem það kemur að, í að minnsta kosti 12 mánuði frá því að úr máli er leyst.

Tilkynningar til fagráðs

Eineltismálum er hægt að vísa til fagráðs Æskulýðsvettvangsins svo fremi sem ekki hafi tekist, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, að leiða málið til lausnar á heimavelli félagsins.  Þolandi eða forráðamenn þolanda geta jafnframt vísað máli til fagráðs. Tilvísun máls til fagráðs skal vera skrifleg, á þar til gerðu eyðublaði, og skal senda hana á netfangið fagrad@aev.is ásamt fylgigögnum, þar á meðal upplýsingum um fyrri vinnslu.