Ekkert hatur

Ekkert hatur

Eitt af markmiðum Æskulýðsvettvangsins er að auka vitundarvakningu barna, ungmenna og fullorðinna um einelti og hatursorðræðu á netinu.

Árið 2013 var farið af stað með verkefnið Ekkert hatur – orðum fylgir ábyrgð á Íslandi. Hópur stofnana og samtaka á Íslandi stendur á bak við verkefnið og er hluti af verkefni Evrópuráðsins sem ber heitið No Hate Speech Movement. Fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytisins annast Heimili og skóli, SAFT, SAMFÉS, Landssamband æskulýðsfélaga og Æskulýðsvettvangurinn útfærslu verkefnisins hér á landi í samstarfi við Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Verkefninu er ætlað að vekja athygli á hatursorðræðu á netinu, vekja ungt fólk til umhugsunar og hvetja það til að bregðast við. Verkefnið stendur fyrir jafnrétti, virðingu, mannréttindum og fjölbreytileika. Því er beint gegn einelti, hatursorðræðu, kynþáttafordómum og mismunun á netinu.

Markmið verkefnisins eru m.a.

  • Að stuðla að jafnrétti, virðingu, mannréttindum og fjölbreytileika.
  • Að stuðla að vitundarvakningu um hatursáróður og hatursorðræðu meðal ungs fólks á netinu.
  • Að kynna mikilvægi miðlalæsis.
  • Að auka vitund gegn hatursáróðri á netinu.

Auk þess að taka þátt í Ekkert hatur verkefninu stendur Æskulýðsvettvangurinn fyrir vitundarvakningu um hatursorðræðu á netinu á viðburðum innan aðildareininganna.