Kynferðisbrot og meðferð þeirra

basrn

Kynferðisbrot líðast ekki innan aðildarfélaga Æskulýðsvettvangsins. Allar tilkynningar um kynferðisbrot skal taka alvarlega og óheimilt er að afgreiða ætluð kynferðisbrot innan aðildarfélaga.

Með hugtakinu kynferðisbrot er átt við þá háttsemi sem lýst er refsiverðri í XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og í barnaverndarlögum nr. 80/2002.

Hvað er kynferðisbrot?

Kynferðislegt ofbeldi er misnotkun á annarri manneskju þar sem gerandinn beitir eða hótar að beita ofbeldi eða þvingar þolanda á annan hátt kynferðislega. Þessi misnotkun getur verið allt frá káfi, þukli og klúru orðbragði upp í fullframið nauðgunarbrot í skilningi almennra hegningarlaga. Þá þarf kynferðislegt ofbeldi ekki alltaf að fela í sér beina snertingu þar sem kynferðislegt tal, sýni- og gægjuhneigð og að sýna barni klámfengið efni eru dæmi um brot sem fela ekki í sér beina snertingu.

Kynferðisleg áreitni er óvelkomin kynferðisleg hegðun sem skapar auðmýkjandi eða fjandsamlegar aðstæður til vinnu, náms eða félagslegrar samvinnu, hvort sem áreitnin er líkamleg, orðbundin eða myndræn. Kynferðisleg áreitni felur í sér samskipti sem einkennast af misnotkun á valdi, styrkleika eða stöðu þar sem kynferði þolandans er í brennidepli. Það sem greinir slíka framkomu frá vinahótum og vingjarnlegri stríðni er að hún er í óþökk þess sem fyrir henni verður, hún er ekki gagnkvæm, ekki á jafnræðisgrundvelli.

Fagráð Æskulýðsvettvangsins

Á vegum Æskulýðsvettvangsins starfar fagráð sem tekur til umfjöllunar kynferðisbrotamál og eineltismál sem koma upp innan aðildarfélaga Æskulýðsvettvangsins. Fagráðið er skipað að minnsta kosti tveimur einstaklingum er hafa þekkingu, menntun og reynslu sem nýtist við meðferð kynferðisbrotamála.

Fagráðið tekur við öllum tilkynningum um kynferðisbrot sem koma upp í starfi aðildarfélaganna og heldur utan um skráningu þeirra. Fagráðið sér til þess að tilkynningunum sé komið í réttan farveg og að þær fái viðhlítandi málsmeðferð samkvæmt verklagsreglum fagráðs og landslögum.

Jafnframt leiðbeinir fagráðið þolendum um málsmeðferð og sér til þess að þeir fái stuðning eftir því sem við á hverju sinni

Tilkynningar til fagráðs

Hafir þú orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi innan aðildarfélaga Æskulýðsvettvangsins býðst þér að hafa samband við fagráðið í gegnum netfangið fagrad@aev.is. Fagráðið sér um að þú fáir þann stuðning sem þú þarft á að halda og leiðbeinir þér um næstu skref.

Trúnaður

Mæli lög ekki fyrir á annan veg er fagráðsmönnum og öðrum starfsmönnum Æskulýðsvettvangsins skylt að gæta þagmælsku um þau mál sem fagráðinu berast.