Netnámskeið í barnavernd

Netnámskeiðheader

Æskulýðsvettvangurinn hefur tekið í notkun netnámskeið í Barnavernd fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Um er að ræða nýjung í fræðslu og forvörnum í barnaverndarmálum á Íslandi sem snýr að því að gera umhverfi barna og ungmenna í félagsstarfi öruggara.

Það er mikilvægt að þeir sem starfa með börnum og ungmennum eru meðvituð um skyldur sínar og ábyrgð. Starfsfólk og sjálfboðaliðar sem vinna með börnum og ungmennum þurfa að þekkja mismunandi birtingarmyndir ofbeldis, eineltis og annars áreitis sem börn og ungmenni geta orðið fyrir og vita hvernig bregðast eigi við þegar slíkt kemur upp í félagsstarfi.

Markmiðið með námskeiðinu er að auka þekkingu starfsfólks og sjálfboðaliða í íþrótta- og æskulýðsfélögum um land allt á einelti, ofbeldi og áreitni sem börn og ungmenni geta orðið fyrir og afleiðingunum af því. Tilgangurinn með því er að reyna að koma í veg fyrir að slíkt komi upp í íþrótta- og æskulýðsstarfi og gera börnum og ungmennum auðveldara með að fá úrlausn slíkra mála þegar þau koma upp.

Námskeiðið er opið öllum áhugasömum.

Hér er hægt að nálgast frekari upplýsingar og námskeiðið sjálft með því að smella hér.

 

Námskeiðið er sett á laggirnar af Æskulýðsvettvanginum í samstarfi við fagaðila í barnaverndarmálum. Efni námskeiðsins var samið af Þorbjörgu Sveinsdóttur, sálfræðingi, Ólöfu Ástu Farestveit, uppeldis, afbrota og fjölskyldufræðing, Semu Erlu Serdar, sérfræðingi í samskiptum og forvörnum og Björg Jónsdóttur hjá Erindi – samtökum fagfólks á sviði uppeldis-, lýðheilsu- og menntunarfræða. Fleiri aðilar komu með ýmsum hætti að því að setja námskeiðið á laggirnar. Er þeim öllum færðar bestu þakkir fyrir.

 

Verkefnið er styrkt af Félagsmálaráðuneytinu, Æskulýðssjóði og Lýðheilsusjóði.