Neteinelti er ein stærsta ógnin sem börn og ungmenni standa frammi fyrir

Birtingamyndir, einkenni og alvarlegar afleiðingar neteineltis

Haltukjafti heelvitis beigla ert þu ekki of gömul fyrir grammtið tík
Athugasemd á Instagram
Dreptu þig !!! 🤮 🤮
Skilaboð á Snapchat
Neteinelti er yfirleitt skilgreint sem neikvætt áreiti af ásettu ráði af höndum eins aðila eða hóps á rafrænu formi gagnvart einstaklingi sem getur ekki auðveldlega varið sig. Um er að ræða áreiti sem getur falið í sér valdaójafnvægi og misbeitingu á valdi í gegnum hvers konar upplýsinga- og samskiptatækni.
Rannsóknir hafa sýnt að ungt fólk notar netið í allt að 40 klukkustundir á viku og að allt að 92% barna fari á netið á hverjum degi. Vegna þessa eru þau berskjölduð gagnvart neteinelti og er mikilvægt að leita leiða til þess að sporna gegn því. Afleiðingar af neteinelti geta verið alvarlegar, jafnt fyrir þolendur, gerendur og samfélagið í heild.
f u bitch
Skilaboð á messenger
Öllum er drullu sama hvað þer finnst þunga beyglan þinn sjugðubara feitan það eru ekki geimvisindi bara að halda kjafti
Instagram

Nokkrar staðreyndir um neteinelti

Neteinelti er alvarlegt samfélagslegt vandamál.
Neteinelti finnst á meðal allra aldurshópa, kynja og hópa fólks.
Neteinelti beinist oft sérstaklega gegn jaðarsettum einstaklingum eða hópum.
Hver sem er getur verið gerandi í neteinelti og hver sem er getur verið þolandi neteineltis.
Gerendur í neteinelti geta verið einstaklingar eða hópar fólks.
Gerendur neteineltis geta verið nafnlausir - sem gerir það sérstaklega erfitt viðureignar og úrlausnar.
Neteinelti getur farið fram hvar sem er og hvenær sem er. Þolendur neteineltis eru því oft hvergi óhultir.
Þolendur neteineltis þekkja ekki alltaf gerandann.
Neteinelti getur haft alvarlegri afleiðingar en hefðbundið einelti.
Neteinelti er ítrekað endurtekið af öðrum með endurbirtingum og endursendingum. Það verður yfirleitt til þess að þolandinn þurfi að upplifa eineltið margoft.
Þolendur neteineltis, og þá sérstaklega ungmenni, greina oft ekki frá eineltinu. Þolendur fá þar af leiðandi ekki viðeigandi aðstoð og reyna að vinna úr afleiðingunum af því sjálf. 
Þeir sem eru þolendur neteineltis eru oft einnig þolendur hefðbundins eineltis.
Einstaklingar geta verið bæði þolendur og gerendur í neteinelti.
Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að allt að 75% barna á skólaaldri hafa verið þolendur neteineltis og að mikill meirihluti nemenda í framhaldsskóla, eða 78%, hafa verið þolendur neteineltis.
Hvernig geturðu verið svona ljót, þú ert al­gert ógeð, dreptu þig
Sent til 10 ára stelpu við mynd hennar á Tik Tok
Foreldrar þinir foru fra þer utaf þvi þau vissu að þu mundir vera mestu mistok dauðans!
Skilaboð á Snapchat

Birtingamyndir neteineltis

Algengt er að skipta neteinelti í flokka eftir birtingarmyndum. Eineltið felur meðal annars í sér að reyna að stjórna eða ráðskast með þolandann, áreita, niðurlægja, stríða eða ógna.

Logandi

flaming
Þegar gerandi sendir reiðileg, dónaleg eða ósmekkleg skilaboð sem beinast að einstaklingi eða hópi fólks í einkaskilaboðum eða hópskilaboðum.

Áreiti

harassment
Þegar þolandi fær ítrekað send óviðeigandi, dónaleg og særandi skilaboð.

Umsátur á netinu

cyber stalking
Þegar áreitið er orðið ítrekað og ógnandi eða því fylgja hótanir um skaða. Umsátur á netinu er frekar algengt og þá sérstaklega á meðal eldri einstaklinga.

Mannorðsspjöll

denigration
Þegar gerandi reynir að eyðileggja orðspor þolanda, meðal annars með því að senda skaðleg, grimm eða ósönn ummæli til annarra, eða skrifar þau á netið fyrir annað fólk að sjá.

Eftiröpun

masquerade eða impersonating
Þegar gerandi villir á sér heimildir og þykist jafnvel vera sá einstaklingur sem hann vill koma höggi á með sendingu skilaboða á aðra eða innsetningu efnis á netið sem kemur einstaklingnum illa eða stefnir honum í hættu.

Opinberun og svik

outing and trickery
Þegar gerandi sendir skilaboð eða birtir efni um þolandann sem innheldur viðkvæmar eða óþægilegar persónulegar upplýsingar. Til dæmis einkaskilaboð eða myndir í einkaeigu.

Útilokun

exclusion
Þegar aðgerðir geranda fela í sér það markmið að útiloka þolanda frá hópum á netinu. Það getur til dæmis átt við í samskiptum eða leikjum.

Lokkun

catfishing
Þegar eintaklingur er lokkaður í tilfinninga- eða rómantískt samband í gegnum netið sem stendur yfir í langan tíma við einstaklinga sem eru skáldskapur. Er það gert til þess að særa, niðurlægja eða koma höggi á fólk.
Ég vona að  þú og öll fjöllann þin deyji inn í brennandi húsi
Yolo á snapchat
Allir hata þig, enginn elskar þig, þú átt ekki skilið að lifa.
Athugasemd á Facebook

Hvar fer neteinelti fram?

Boðleiðir neteineltis eru jafn fjölbreyttar og birtingamyndir þess eru en neteinelti fer yfirleitt fram á þeim vettvangi sem er vinsælastur hverju sinni.
Vettvangur neteineltis getur breyst snögglega og mikilvægt er að inngrip og forvarnir gegn neteinelti fylgi þeirri þróun.
Samskiptamiðlar og smáskilaboð. Til dæmis Tik-Tok, Instagram, Snapchat, Messenger eða WhatsApp.
Samfélagssíður, spjallsvæði og blogg. Til dæmis Facebook og Instagram.
Leikjasíður og tölvuleikir sem spilaðir eru í gegnum netið.
Athugasemdakerfi fréttamiðla.
Ég sast óvart í stólinn þinn og núna er ég pottþétt með síkingu eða eh fkn sjúkdóm útaf þér
Skilaboð á Instagram
Ef þú værir dýr þá værirðu ormur þú ert svo tilgangslaus
Skilaboð á Instagram

Afleiðingar neteineltis

Neteinelti er alvarlegur lýðheilsuvandi sem hefur áhrif á félagslega stöðu fólks. Áhrifin og afleiðingarnar af einelti geta verið mjög alvarlegar, jafnt fyrir einstaklinga sem og samfélagið í heild sinni.
Neteinelti getur haft líkamlegar sem og andlegar afleiðingar fyrir þolendur. Áhrifin eru íþyngjandi og þau eru oft langvarandi. Þegar atburðarás netáreitis er farin af stað er mjög erfitt að stöðva hana og það getur verið erfitt fyrir þolendur að ráða við afleiðingarnar. Vegna eðlis neteineltis er þolandinn hvergi óhultur. Neteinelti hefur neikvæðar afleiðingar fyrir alla sem eiga aðild að því.
  • Þolendur neteineltis eiga oft við kvíða, streitu, þunglyndi og svefnörðugleika að stríða.
  • Þolendur glíma oft við lágt sjálfsmat, lélega sjálfsmynd, einmannaleika og félagslega erfiðleika.
  • Neteinelti hefur áhrif á námsárangur þar sem þolendur þora stundum ekki að mæta í skólann.
  • Þolendur geta leiðst út í ávana- og vímuefnanotkun,ofbeldi eða aðra áhættuhegðun.
  • Þolendur eru svartsýnni en aðrir, þeir eiga oft fáa vini og glíma við félagslega einangrun.
  • Þolendur sem vita ekki hver gerandinn er eiga ofterfitt með að treysta fólki og eru tortryggnir í samskiptum við aðra.
  • Því oftar sem neteineltið er endurtekið því meiri hætta er á þunglyndi, sjálfsskaða og sjálfsvígshugsunum hjá þolendum.
  • Þátttaka í neteinelti ýtir undir þunglyndi og sjálfsvígshugsanir hjá gerendum.
  • Gerendur neteineltis eru líklegri en aðrir til þess aðhafa reynt að taka sitt eigið líf.
neniru ekki að drepa þig! 😠
Yolo á snapchat
Eg ætla að fokkin skjota fjölskylduna þina
Athugasemd á Instagram

Vísbendingar um neteinelti

Merki um að neteinelti eigi sér stað hjá barni eða ungmenni geta verið fjölbreytt. Þau eiga það þó flest sameiginlegt að fela í sér breytingu á hegðun.
Hér eru nokkur dæmi um vísbendingar um neteinelti.Hafa ber þó í huga að þrátt fyrir að eitt eða fleiri merki eiga við um barn eðaungmenni þýðir það ekki endilega að um neteinelti sé að ræða.
  • Einstaklingurinn dregur sig í hlé frá vinum eða áhugamálum
  • Einstaklingurinn vill ekki ræða netnotkun sína.
  • Óútskýranlegur magaverkur eða hausverkur.
  • Engin löngun til að fara í skóla.
  • Andvökunætur.
  • Áhugaleysi.
  • Lystarleysi.
  • Uppgerð veikinda.
  • Skyndileg reiði eða pirringur.
  • Óútskýranleg depurð og þreyta.
  • Streita eða hræðsla þegar síminn gefur frá sér hljóð.
  • Sjálfsskaði, sjálfsvígshugsanir eða sjálfsvígstilraunir.
Ertu að grenja - þu add ennga vinni 🤣 debdu þig!
Skilaboð á Tik Tok
Dreptu þig litla tussa, ert mesta drasl ever
Skilaboð á tik tok

Hvað get ég gert?

Ég er þolandi neteineltis

Ef þú ert þolandi neteineltis er mikilvægt fyrir þig að greina frá eineltinu og fá aðstoð með að stoppa það og vinna úr afleiðingum þess.
Þú getur greint fullorðnum einstaklingum frá neteineltinu og þeir munu aðstoða þig með næstu skref. Það geta verið foreldrar/forsjáraðilar, kennarar eða starfsfólk í frítímatengdu starfi, eins og til dæmis þjálfari eða frístundaleiðbeinandi. Það er mikilvægt að þú leitir til einhvers sem þú treystir.

Ég er gerandi neteineltis

Neteinelti hefur líka neikvæð áhrif á gerendur. Áhrifin af því að leggja aðra í einelti geta fylgt einstaklingum fram á fullorðinsárin.
Ef þú ert gerandi eineltis er mikilvægt að þú leitir þér aðstoðar sem fyrst. Þú getur greint fullorðnum einstaklingum frá neteineltinu og þeir munu aðstoða þig með næstu skref. Það geta verið foreldrar/forsjáraðilar, kennarar eða starfsfólk í frítímatengdu starfi, eins og til dæmis þjálfari eða frístundaleiðbeinandi. Það er mikilvægt að þú leitir til einhvers sem þú treystir. 

Ég er áhorfandi að neteinelti

Áhorfendur gegna mikilvægu hlutverki þegar kemur að því að draga úr eða ýta undir einelti. Vegna sérstöðu neteineltis getur hlutverk þeirra verið sérstaklega mikilvægt. Það er mikilvægt fyrir áhorfendur að vera meðvitaðir um hvernig þeir eiga að bregðast við þegar þeir verða vitni að neteinelti. 
Ef þú ert áhorfandi að neteinelti þarftu að vera meðvitaður um að dreifa ekki áfram efni sem þú færð sent eða sérð um aðra á netinu. Með því kemur þú í veg fyrir að neteineltið stigmagnist. Það er mikilvægt að þú sem áhorfandi komir þolenda til varnar þegar þú getur. Án þess þó að setja þig í hættu. 
Það er mikilvægt að þú greinir fullorðnum einstaklingum frá neteineltinu sem á sér stað til þess að hægt sé að grípa inn í eineltið og stöðva það. Það geta verið foreldrar/forsjáraðilar, kennarar eða starfsfólk í frítímatengdu starfi, eins og til dæmis þjálfari eða frístundaleiðbeinandi. Það er mikilvægt að þú leitir til einhvers sem þú treystir. 

Ég er foreldri/forsjáraðili

Foreldrar /forsjáraðilar gegn oftar en ekki lykilhlutverki þegar kemur að því að stöðva einelti. Ef þú ert foreldri/forsjáraðili barns eða ungmennis er mikilvægt að þú opnir á umræðuna um neteinelti. Það eykur líkurnar á því að sagt er frá eineltinu.
Ef barnið þitt eða ungmenni er þolandi eða gerandi eða áhorfandi í neteinelti er mikilvægt að þú eigir opnar og rólegar samræður við einstaklinginn. Legðu áherslu á að hlusta, skilja og dæma ekki. Sýndu barninu eða ungmenninu stuðning og láttu einstaklinginn vita að þú munir hjálpa því að leysa vandann. Greindu barninu eða ungmenninu frá alvarleika málsins. Fræddu einstaklinginn um neteinelti, birtingarmyndir þess og alvarlegar afleiðingar. 
Legðu áherslu á að þið munið takast á við málið í sameiningu og í samvinnu við viðeigandi aðila. Tilkynntu málið svo til viðeigandi aðila og fáðu aðstoð fagaðila fyrir barnið eða ungmennið.
Loks er mikilvægt að huga að netnotkun barnsins eða ungmennisins og jafnvel setja henni einhverjar skorður. 

Ég starfa með börnum og ungmennum

Ef þú starfar með börnum og ungmennum er mikilvægt að huga vel að fræðslu og forvarnarstarfi þegar kemur að neteinelti hvort sem það er í skólanum, hjá íþróttafélaginu, í félagsmiðstöðinni eða á vinnustaðnum.
Það á jafnt við um fræðslu fyrir börn og ungmenni sem og fræðslu fyrir ábyrgðaraðila sem starfa með börnum og ungmennum.
Ef þú starfar með börnum og ungmennum er mikilvægt að þú vitir hvernig haga eigi inngripi þegar neteinelti kemur upp í hópnum þínum og hvert þú getur leitað eftir aðstoð. Rannsóknir hafa sýnt fram á að inngrip sem leggja áherslu á að auka skilning ungmenna á neteinelti og breyta viðhorfi þeirra gagnvart því bera árangur. Hið sama á við um áætlanir sem leggja áherslu á að auka félagsfærni. 
Ef þú starfar með börnum og ungmennum er mikilvægt að þú opnir á umræðuna um neteinelti og alvarlegar afleiðingar þess á meðal þeirra barna og ungmenna sem þú starfar með. Það getur þú gert með því að fá til þín fræðslu um neteinelti. Með því skapar þú traust í umhverfinu sem gerir þolendum, gerendum og áhorfendum kleift að leita til þín eftir aðstoð þegar neteinelti á sér stað. 

Hvernig hagar þú þér á netinu?

Höfundur efnisins er Sema Erla

Verkefnið er styrkt af
Æskulýðssjóði og Lýðsheilsusjóði