Það er mikilvægt að allir sem starfa með börnum og ungmennum séu meðvitaðir um skyldur sínar og ábyrgð og viti hvernig á að bregðast við þegar upp koma atvik eða áföll í starfinu. Eitt af markmiðum Æskulýðsvettvangsins er að stuðla að aukinni fræðslu og forvörnum í íþrótta- og æskulýðsstarfi á Íslandi í þeim tilgangi að gera umhverfi barna og ungmenna í félagsstarfi öruggara. Námskeið Æskulýðsvettvangsins eru liður í því.
Æskulýðsvettvangurinn hefur frá árinu 2010 staðið fyrir námskeiðinu Verndum þau fyrir þau félagasamtök sem saman mynda vettvanginn, aðildarfélög þeirra og aðra áhugasama. Námskeiðið er byggt á efni samnefndrar bókar og fjallar um hvernig bregðast á við grun um ofbeldi og vanrækslu gegn börnum og ungmennum.
Siðareglur eru mikilvægur hlekkur í því að standa vörð um hagsmuni barna og ungmenna sem taka þátt í íþrótta- og æskulýðsstarfi og til að tryggja öryggi þeirra, sem og starfsfólks og sjálfboðaliða í starfinu.
Nánar um námskeiðiðNámskeiðinu er ætlað að auka þekkingu starfsfólks og sjálfboðaliða í íþrótta- og æskulýðsfélögum um land allt á einelti, ofbeldi og áreitni sem börn og ungmenni geta orðið fyrir og afleiðingunum af því. Námskeiðið inniheldur fræðslu um líkamlegt og andlegt ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi, vanrækslu, samskiptavanda og einelti, með áherslu á börn og ungmenni.
Á námskeiðinu er meðal annars fjallað um fjölmenningarleg samfélög, almennt sem og í íslensku samhengi. Fjallað er um nokkur mikilvæg hugtök, viðhorf og umræðuhefð sem og mismunandi birtingarmyndir fordóma, kynþáttaníðs og mismununar í íþrótta- og æskulýðsstarfi.
Einelti er ekki liðið. Æskulýðsvettvangurinn stendur fyrir námskeiði um einelti í íþrótta- og æskulýðsstarfi fyrir þau félagasamtök sem saman mynda vettvanginn, aðildarfélög þeirra og aðra áhugasama.
Nánar um námskeiðiðHatursorðræða er vaxandi vandamál í íslensku samfélagi og hatursorðræða á netinu er ein af þeim stóru hættum sem steðja að börnum og ungmennum í dag. Á námskeiði Æskulýðsvettvangsins um hatursorðræðu er meðal annars fjallað um hvernig koma megi í veg fyrir að börn og ungmenni tileinki sér slíka hegðun.
Nánar um námskeiðið