Um Æskulýðsvettvanginn

Siðareglur

Æskulýðsvettvangurinn (ÆV) er samstarfsvettvangur Ungmennafélags Íslands, Bandalags íslenskra skáta, KFUM og KFUK á Íslandi og Slysavarnafélagins Landsbjargar. Æskulýðsvettvangurinn var stofnaður árið 2007 en formleg stofnun fór fram sumarið 2012.

Tilgangur og markmið

Æskulýðsvettvangurinn vinnur að sameiginlegum hagsmunamálum barna og ungmenna. Tilgangur og markmið félagsins er að stuðla að samræðu og samstarfi aðildarfélaganna á sviði leiðtogaþjálfunar, fræðslu- og forvarnarmála, útbreiðslu og kynningar sem og á öðrum sviðum eftir því sem þurfa þykir. Tilgangi sínum og markmiðum hyggst félagið ná með því að standa fyrir námskeiðum, ráðstefnum og öðrum sameiginlegum verkefnum sem lúta að hagsmunum barna og ungmenna.

Stefnuyfirlýsing Æskulýðsvettvangsins

Æskulýðsvettvangurinn telur mjög mikilvægt að öllum líði vel í leik og starfi innan ÆV og að sá grundvallarréttur, að fá að vera óáreittur, sé virtur. ÆV leggur áherslu á að stuðla að jákvæðum samskiptum þar sem hver og einn sé ábyrgur fyrir orðum sínum og gjörðum. Starfsfólk og sjálfboðaliðar eiga þannig að gæta vandvirkni og samvikusemi og koma fram af umhyggju, heiðarleika og virðingu gagnvart öllum þeim sem starfað er með og fyrir. ÆV leggur einnig ríka áherslu á að starfsfólk og sjálfboðaliðar séu fyrirmyndir þátttakenda og sýni góða hegðun og gott fordæmi, jafnt í starfi sem utan þess. Jafnframt telur ÆV mikilvægt að stuðlað sé að heilbrigðu, uppbyggjandi og vönduðu starfi með börnum og ungmennum.

Gildi Æskulýðsvettvangsins eru vellíðan, velferð og öryggi. Þau endurspegla tilgang, markmið og stefnuyfirlýsingu ÆV.