Viðbragðsáætlun Æskulýðsvettvangsins

viðbragðsáætlun

Æskulýðsvettvangurinn hefur gefið út viðbragðsáætlun fyrir þau félagasamtök sem mynda Æskulýðsvettvanginn og aðildarfélög þeirra þar sem finna má verkferla sem fylgja skal þegar upp koma atvik eða áföll sem kunna að hafa áhrif á starf félags.

Viðbragðsáætlunin tekur til allra þeirra sem starfa á vegum Æskulýðsvettvangsins og þeirra félagasamtaka sem mynda saman Æskulýðsvettvanginn, þ.e. Bandalag íslenskra skáta, KFUM og KFUK á Íslandi, Slysavarnafélagið Landsbjörg og Ungmennafélag Íslands. Hún nær til aðildarfélaga þeirra samtaka sem mynda Æskulýðsvettvanginn, allra iðkenda í íþrótta- og æskulýðsstarfi þeirra, stjórnenda, yfirmanna, starfsmanna, sjálfboðaliða og annarra ábyrgðaraðila innan félaganna.

Það eru ýmis atvik sem upp kunna að koma í íþrótta- og/eða æskulýðsstarfi og bregðast þarf við. Erfitt er að gera þeim öllum skil en mikilvægt að hafa ákveðnar grunnreglur til að fylgja.

Verkferlarnir eru einfaldir og eiga við í öllum tilvikum, óháð því hvaða ábyrgðaraðila og atvik er um að ræða. Dæmi um atvik sem viðbragðsáætlunin nær til eru agabrot, ávana- og vímuefnanotkun, einelti, kynferðisbrot, alvarleg veikindi, áföll, slys og andlát.

Áætlunin er þríþætt og nær til:

  • Atvika sem upp kunna að koma í íþrótta- og/eða æskulýðsstarfi.
  • Áfalla sem börn, ungmenni og ábyrgðaraðilar verða fyrir í starfi.
  • Áfalla sem börn, ungmenni og ábyrgðaraðilar verða fyrir utan félagsstarfs, en gætu haft áhrif á líðan þeirra og störf innan félagsstarfsins.

Viðbragðsáætlunina má nálgast í heild sinni hér að neðan.